Það er sama hvað ég reyni!

Hér áður fyrr, fóru menn á fjöll í lopapeysunni og voru frekar svalir með pípuna klára.

Hér áður fyrr, fóru menn á fjöll í lopapeysunni og voru frekar svalir með pípuna klára.

Mig langar svo að vera þessi hressi gæi.  Þessi sem hjólar, gengur á fjöll, hleypur í Colour Run, Miðnæturhlaupi ÍR og Reykjavíkurmaraþoninu.  Mig langar svo að vera þessi hressi gaur sem klífur jökla og hjólar 75 km svona rétt áður en hann kemur heim í mat.

Það er alveg sama hvað ég reyni, ég er ekki þessi gaur!

Nokkrir vinir mínir eru svona naglar.  Þeir geta hreinlega ekki sleppt því að hlaupa upp á fjall þegar þeir sjá það.  Einn er svo svakalegur að hann hleypur morgunskokkið með bakpoka, fullan af steinum.

Það er alveg sama hvað ég reyni, ég er ekki þessi gaur!

Það vantar ekki, ég á allan gírinn; ísaxirnar, klifurbeltin, jökla gaddana, nokkrar úlpur og hlífðargalla, bakpoka í nokkrum stærðum og síðan en ekki síst, allskyns lítið drasl sem er cool að hafa með s.s. ljós, klippur, skrúfjárn og öryggis dót.  Við skulum ekki gleyma göngu úrunum, GPS græjunum og hjartsláttar mælitækjum!

Það er alveg sama hvað ég reyni, ég er ekki þessi gaur!

Ég er kannski bara bestur heima - hjá konunni.  Hún svo sem kvartar ekki, þó að ég sé ekki hressi gaurinn.  Henni er svo sem sama, en ég segi félögum mínum til gamans að hún segi stundum; "Af hverju ertu ekki eins og Helgi, hann er alltaf að gera eitthvað....".  Þeir.. amk. Helgi verður voða montinn að heyra það, því hann er ofvirkur og alltaf allsstaðar.

Það er alveg sama hvað ég reyni, ég er ekki þessi gaur, sem er alltaf allsstaðar - sama hvað ég reyni!!

Ég ætla samt ekki að gefast upp, því ég veit að ég hef bæði gott af þessu og þetta er skemmtilegur félagsskapur. Og það skemmir ekki fyrir að það er er ekkert sem jafnast á við að eiga fullt af allskonar græjum.  Og ég á nóg af þeim og hef átt; golfdót, gúmmíbátadót, kajakadót, vélsleðadót, fjórhjóladót, hjóladót, veiðidót, bátadót, hlaupadót, göngudót og svo mætti lengi halda áfram.  Kannski er bara besta dótið, grilldótið, enda nota ég það mikið.  Ég er sennilega bara sá gaur og best geymdur þar!